05.10.2014

Morgunblaðið 3.Okt Viðtal við Grím

 Viðtal við Grím í Morgunblaðinu á Föstudaginn 3.Okt.
 
Frá hugmynd í hillur allra stórmarkaða
Grímur kokkur í Eyjum hefur vaxið hratt á áratug
 
»Við höfum vaxið á hverju ári. Þessi starfsemi er góð búbót við flóruna hérna,« segir Grímur Þór Gíslason, matreiðslumeistari í Vestmannaeyjum. Honum...
 
Verksmiðjan Hjá Grími kokki er gott vinnuumhverfi og fullkominn búnaður til framleiðslunnar. 
 

 Vitinn Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Morgunblaðið 3 Okt 2014
 
»Við höfum vaxið á hverju ári. Þessi starfsemi er góð búbót við flóruna hérna,« segir Grímur Þór Gíslason, matreiðslumeistari í Vestmannaeyjum. Honum hafði lengi blöskrað hve stór hluti af hráefninu í þessari stærstu verstöð landsins var fluttur út óunninn. Fannst að vinna ætti úr aflanum verðmætari varning. Úr varð að hann stofnaði ásamt konu sinni og bræðrum, Ástu Maríu Ástvaldsdóttur, Sigmari og Gísla Matthíasi, fyrirtækið Grím kokk sem í núverandi mynd hefur starfað í áratug og framleitt tilbúna rétti sem seldir eru í matvörubúðum um land allt og njóta mikilla vinsælda.
 
Stór vinnustaður
 
Vörurnar eru sendar frá Eyjum til Reykjavíkur tvisvar á dag og sjá tveir sölumenn staðsettir í Reykjavík um að koma þeim í búðirnar. Í Eyjum eru starfsmenni fyrirtækisins átján. »Þetta skiptir máli fyrir plássið,« segir Grímur og bendir á að í hlutfalli við íbúafjöldann í Eyjum sé Grímur kokkur eins og mörg hundruð manna vinnustaður á höfuðborgarsvæðinu.
 
Þrjátíu réttir
Réttirnir sem Grímur kokkur framleiðir eru um þrjátíu en pakkningarnar eru í ýmsum stærðum og því fleiri. Auk fiskrétta eins og fiskibolla, fiskistanga, fiskibuffs, plokkfisks og ýsurúllu með fyllingu, er humarsúpa á boðstólum og svo nokkrar tegundir af grænmetisréttum svo sem gulrótarbuff og indverskar grænmetisbollur.
Grímur kokkur selur ekki aðeins í búðir. »Við erum með samning við Reykjavíkurborg og seljum réttina okkar í mötuneyti borgarinnar,« segir Grímur Þór.
 
Ávinningur fyrir samfélagið
Fyrir hálfu öðru ári flutti Grímur kokkur í núverandi húsnæði sem er tæpir ellefu hundruð fermetrar að stærð. Þar er nýtískulegur og fullkominn framleiðslubúnaður, að hluta til innfluttur og að hluta til smíðaður í Eyjum.
»Við reynum að beina eins miklum viðskiptum til fyrirtækja hér og unnt er. Við fengum Eyjablikk til að smíða fyrir okkur steikingarlínuna. Hún er sérhönnuð fyrir okkur. Svo látum við prenta umbúðirnar utan um réttina hér á staðnum. Markmiðið er að sem mest af verðmætum verði eftir í samfélaginu hérna,« segir Grímur Þór. Þessi afstaða hefur mælst vel fyrir í Eyjum og nýtur fyrirtækið mikilla vinsælda á staðnum og er eftirsóttur vinnustaður.
 
Grímur Þór Gíslason byrjaði feril sinn með veisluþjónustu í Eyjum. Nóg var að gera um helgar en lítið í miðri viku. Þá fór hann að steikja fiskibollur og selja og ekki leið á löngu þar til Grímur kokkur sá dagsins ljós. Síðan hefur sagan verið ævintýri líkust.
 
Hráefnið úr Eyjum
Fyrirtækið hefur átt gott samstarf við sjómenn og fiskvinnslufyrirtæki í Eyjum og fær hjá þeim hráefni sitt. Sumt af þeirri vöru sem Grímur kokkur kaupir, svo sem humarklær, var áður hent og urðað með tilheyrandi kostnaði, Nú er soðinn úr þeim kraftur og notaður í humarsúpu fyrirtækisins.
 
Grímur Þór segir að vörumerkið standi fyrir mat sem sé bæði hollur og bragðgóður og tilbúinn til neyslu á innan við fimm mínútum.
 
Morgunblaðið 3.Okt 2014
Til baka
Grímur kokkur ehf  |  Hlíðarveg 5  |  900 Vestmannaeyjar  |  481 2665  |  grimurkokkur@grimurkokkur.is
Keyrir á vefumsjónarkerfi Smartmedia